Íslenskuverðlaun unga fólksins 2025

Íslenskuverðlaun Seljaskóli

47 nemendur úr grunnskólum Reykjavíkur og Borgarbyggðar fengu í gær afhent Íslenskuverðlaun unga fólksins. Verðlaunin eru afhent ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, og fór hátíðleg athöfnin fram í Norðurljósasal Hörpu. Þetta var í 19. sinn sem verðlaunin eru veitt og heiðraði Vigdís Finnbogadóttir, verndari verðlaunanna, viðburðinn með nærveru sinni.

Íslenskuverðlaununum er ætlað að efla áhuga grunnskólanema á íslenskri tungu og eru þau veitt þeim sem hafa sýnt framúrskarandi færni í beitingu tungumálsins eða tekið miklum framförum á árinu. 

Nemendur í Seljaskóla; Högni í 4. bekk, Tinna Karen í 6. bekk og Eva Rós í 10. bekk hlutu öll verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Þau hafa hvert um sig sýnt einstaka ástríðu fyrir tungumálinu, hæfni til að tjá sig af skýrleika, búa yfir skapandi hugsun í ritun og eru miklir lestrarhestar.

Við óskum Högna, Tinnu Karen og Evu Rós og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með verðlaunin og þökkum þeim fyrir að vera dýrmætar fyrirmyndir í skólasamfélaginu okkar.