Blái hnötturinn frumsýndur í Seljaskóla
Nemendur í 5. bekk Seljaskóla stigu á svið í síðustu viku og frumsýndu söngleikinn Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason við frábærar undirtektir! Leikararnir ungu sýndi ótrúlega orku, leikgleði og hæfileika og fóru á kostum á sviðinu.
Sandra sá um leikstjórn, samdi dansana og hannaði ævintýralega búninga og sviðsmynd sem gerðu sýninguna enn meira töfrandi. Umsjónakennarar í 5. bekk, þau Hrefna, Anna og Hugi, leiddu nemendur í gegnum texta- og lagaæfingar og unnu með þeim að sviðsmyndinni af sinni alkunnri snilld.
Söngurinn var í öruggum höndum Rósalindar tónlistarkennara sem æfði hópinn af alúð. Tækniteymið, Jón Karl og Óliver Atli í 9. bekk, ásamt Þóri kennara sáu til þess að allt small þetta saman á sviðinu.
Ekki má gleyma foreldrunum sem studdu við sitt fólk heima fyrir, æfðu með þeim línurnar og spiluðu löginn aftur og aftur. Það þarf nefnilega mikla samvinnu margra aðila til að koma svona stórri sýningu á svið.
Áhorfendur skemmtu sér konunglega, hlógu mikið og létu heillast af kraftinum sem einkenndi sýninguna. Það var ljóst að nemendur í 5. bekk eiga framtíðina fyrir sér á stóra sviðinu!