Bókasafn Seljaskóla

Skólasafn Seljaskóla er staðsett í húsi eitt í skólanum, handan skrifstofu skólans. Safnið er bjart og vel búið gögnum og húsgögnum. Skólasafnið leitast við að þjóna öllum nemendum og kennurum skólans.

Góð vinnuaðstaða er á safninu og hafa nemendur aðgang að prentara og tölvum. Einnig geta nemendur komið á skólasafnið til að spila, tefla eða lesa.

 

Hlutverk

Skólasafnið er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Samkvæmt lögum um grunnskóla eiga skólasöfn að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu. Skólasafnið styður nám og kennslu i skólanum og þjónustar nemendur og kennara með útláni bóka, aðstoð við upplýsingaleit, jafnframt því að hvetja nemendur til lesturs, sér til gagns og gamans. 

Mikil áhersla er lögð á glæða áhuga nemenda á lestri og bókmenntum, útvega lesefni við hæfi og velja bækur sem vekja áhuga nemenda. Að njóta góðra bóka og lesa sér til fróðleiks og ánægju skiptir gríðarlega miklu máli í nútímasamfélagi. Lifandi, skemmtilegt og aðlaðandi bókasafn eflir lestraráhuga nemenda og kveikir áhuga þeirra á bókum.

Markmið

  • Aðstoða nemendur og starfsfólk við upplýsingaöflun.
  • Að vekja áhuga nemenda á bókmenntum og lestri góðra bóka
  • Að leiðbeina um notkun safnkosts.
  • Að örva lestur fagurbókmennta og fræðirita.

Opnunartími:

Skólasafnið er opið alla daga frá kl. 8.30 - 16.00 nema á miðviku- og föstudögum, þá lokar safnið klukkan 14.00.

Safnkostur

Á skólasafninu er að finna úrval fræði- og skáldrita til útlána fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Einnig er þar að finna tímarit, myndefni, bekkjarsett af skáldsögum, spil og ýmiss konar kennslugögn. 

Gögnum safnsins er raðað eftir flokkunarkerfi Dewey, skáldritum eftir höfundum og fræðiritum eftir efni. Öll gögn safnsins eru skráð í Ölmu sem er nýtt bókasafnskerfi og samskrá íslenskra bókasafna. Upplýsingar um safnkost safnsins eru aðgengilegar á Leitir.is og með sérstöku aðgangsorði geta nemendur og foreldrar skráð sig inn í Leitir.is (mínar síður) til að sjá útlánalista sína eða útlánasögu. Til að komast inn í kerfið þarf notandinn að eiga gilt bókasafnsskírteini og skrá notendanafn sitt (kennitölu) og leyniorð.

 

Teikning af starfsmanni á bókasafni raða bókum í hillur.

Viðburðir

Ýmsir viðburðir, klúbbar og uppákomur tengjast skólasafninu. Meðal annars í tengslum við hrekkjavöku, jólin og öskudag. Einnig koma rithöfundar reglulega í heimsókn til þess að kynna bækurnar sínar

Bókasafnskennsla

Nemendur í 1. - 5. bekk fá reglulega bókasafnskennslu. Þar er megináhersla lögð á að kynna bækur fyrir nemendum á sem fjölbreyttasta hátt með það að markmiði að vekja áhuga nemend á lestri.

Facebook

Skólasafnið er með síðu á Facebook sem hugsuð er fyrir nemendur sem hafa aldur til og foreldra og starfsmenn. Þar eru uppákomur og viðburðir safnsins auglýstir og hægt að fylgjast með því sem fram fer á safnin

Starfsfólk

Starfsmaður skólasafnsins er Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur. Einnig starfar Berglind Sigurgeirssdóttir á safninu í hlutastarfi.