Svakalega lestrarkeppnin 2025

Í dag hefst Svakalega lestrarkeppnin!📖
Við í Seljaskóla ætlum að taka þátt í Svakalegu lestrarkeppninni, sem er landskeppni fyrir nemendur í 1.–7. bekk á vegum List fyrir alla.
Tími: 15. september – 15. október
Tilgangur: Lesa sem mest og safna saman lestrarmínútum.
Hvað telst með? Allur lestur á bókum (nema námsbókum). Það er líka leyfilegt að hlusta á hljóðbækur.
Skólinn sem safnar flestum lestrarmínútum sigrar og hreppir titilinn „Svakalegasti lestrarskóli landsins“ ásamt því að fá glæsileg bókaverðlaun. Að auki fær sá skóli sem les mest í hverjum landshluta sérstaka viðurkenningu.
Sigurvegari verður tilkynntur á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, í sjónvarpsþættinum Málæði á RÚV.
Framkvæmd í Seljaskóla:
Forráðamenn skrá heimalestur eins og venjulega. Hlustun á hljóðbókum og annar yndislestur er einnig skráður. Það er einfalt að skrá allan lestur inn í Læsis-appið. Fyrir þá sem vilja er líka hægt að nota sérstakt lestarhefti til daglegrar skráningar sem má prenta út af vefsíðu keppninnar.
Umsjónarkennari tekur saman lesnar mínútur hvers nemanda á föstudögum í þessar fjórar vikur sem lestrarátakið stendur yfir. Heildarfjöldi lesinna mínútna í Seljaskóla verður síðan sendur inn í keppnina í lok tímabilsins.
Fyrir framan matsalinn verður hvatningarveggur með stórum ísum sem við ætlum að skreyta með lestrarmínútum.
Í lok hverrar viku fá nemendur ísskraut („sprinkles“) fyrir lesnar mínútur: eitt skraut fyrir hverjar 15 mínútur sem lesnar eru, sem þau festa á ísana. 🙂Við stefnum að því að vera með mjög fallega og mikið skreytta ísa í lok tímabilsins.
Svakalega lestrarkeppnin er fyrst og fremst sameiginlegt og skemmtilegt átak hjá skólanum til að efla lestur. Fyrir suma nemendur er svona áskorun mikil hvatning og eykur lestraráhuga en aðrir geta tekið þátt á sínum forsendum eða einfaldlega haldið áfram að lesa eins og venjulega. Markmiðið er ekki keppni milli nemenda heldur að hvetja hvern og einn til að lesa aðeins meira en hann hefði annars gert. En ekki síst er þetta gert til að við séum öll að vinna að sameiginlegu markmiði sem eflir liðsheild Seljaskóla. 🙂