Opni dagurinn 2025

Opinn dagur

Þemavika og opinn dagur

Í síðustu viku litaðist skólastarfið í Seljaskóla af hugrekki, áskorunum og innri styrk þegar nemendur Seljaskóla sameinuðu krafta sína í öflugu þemaverkefni byggðu á bókaflokknum Orri óstöðvandi eftir Bjarna Fritzson. Í gegnum fjölbreytt verkefni fengu nemendur að velta fyrir sér hvernig við getum vaxið og þroskast með því að takast á við hindranir og halda áfram – alveg eins og Orri gerir í bókunum.
 
Áherslan var á sköpun, sjálfstyrkingu og samvinnu – og afraksturinn var hreint magnaður! Þemadögunum lauk með opnum degi síðastliðinn miðvikudag þegar forráðamenn fengu að koma í heimsókn og skoða öll þau frábæru verkefni sem nemendur höfðu unnið að.
 
Heiðursgestur dagsins var enginn annar en sjálfur höfundur bókanna, Bjarni Fritzson. Hann dvaldi með okkur allan tímann sem opni dagurinn stóð yfir, skoðaði afrakstur þemaverkefnanna og var ákaflega stoltur og fullur aðdáunar yfir hugmyndaauðgi og vinnu nemenda. Á bókasafninu spjallaði hann svo við nemendur og veitti eiginhandaráritanir. Á bókasafninu var líka hugmyndakassi því Bjarni vildi og tók á móti hugmyndum frá þeim að því sem þau vildu sjá í næstu Orra bók.
 
Í lok dags afhenti Bjarni verðlaun í fantasíuförðunarkeppni sem fór fram í unglingadeildinni. Hann veitti einnig viðurkenningar til þriggja liða úr 6. og 7. bekk sem tóku þátt í spennandi breakout-keppni á þemadögunum þar sem þrautirnar tengdust Orra bókunum.
 
Það var líf og fjör um allan skóla – alls kyns stöðvar í boði, kaffihús, sýningar, list, hreyfing og leikir. Mikill fjöldi gesta mætti og stemningin var einstök. Nemendur voru stoltir af verkum sínum og gestir dáðust að hugmyndaauðgi, metnaði og gleði sem einkenndi daginn.
 
Viðburðir dagsins vöktu mikla lukku og þetta var sannkallaður hátíðardagur! Fleiri myndir á Facebook síðu Seljaskóla!